Líf sem er lífsins virði: að hugsa um kennara og stjórnendur
Viltu taka þátt í ígrundandi samræðusamfélagi, draga fram það sem gefur lífi þínu merkingu og tilgang, sjá lífið í skýrara ljósi og auka persónulega vellíðan og farsæld?
NORTH Consulting og menntavísindasvið Háskóla Íslands bjóða kennurum og skólastjórnendum í grunnskólum að sækja um að verða hluti af einstökum hópi til að taka þátt í alþjóðlegu námskeiði undir yfirskriftinni „Líf sem er lífsins virði: að hugsa um kennara og stjórnendur“ (Life Worth Living: Caring for Our Educators and Principals learning course).
Námskeiðið er þróað og leitt af North Consulting ehf og Háskóla Íslands í samstarfi við alþjóðlegan hóp prófessora sem eru hluti af Life Worth Living verkefninu við Yale háskóla í Bandaríkjunum þaðan sem Life Worth Living nálguninn er upprunnin. Námskeiðið er hluti af verkefni sem kallast LIFE og er styrkt af Erasmus+ menntaáætlun ESB en auk Íslands taka Belgía, Búlgaría, Grikkland og Ítalía þátt.
Meginmarkmið námskeiðsins „Líf sem er lífsins virði: að hugsa um kennara og stjórnendur“ (LIFE) er að auka vellíðan þeirra kennara og stjórnenda sem taka þátt með því að efla tilfinningu fyrir því að lifa merkingarbæru lífi. Þetta er gert með því að koma saman og kryfja spurningar um inntak og ásýnd hins góða lífs. Að auki munu þátttakendur læra að takast á við ólíka texta, upplifa þátttökumiðaðar kennsluaðferðir og öðlast færni í að ræða saman um ólík gildi og sjónarmið.
Tólf kennarar og skólastjórnendur verða valdir til að taka þátt í fyrsta samræðuhópnum. Sem þátttakandi munt þú taka þátt í þremur tveggja daga vinnustofum fjarri ys og þys hversdagsins og tveimur vinnustofum í rauntíma á netinu. Á milli vinnustofanna munu þátttakendur vinna verkefni á netinu hver á sínum tíma og hraða. Fyrstu tvær vinnustofurnar verða haldnar á Íslandi með íslensku þátttakendunum (febrúar á Laugabakka og maí 2024). Í þriðju vinnustofunni,sem haldin verður í Belgíu, vinna kennarar og stjórnendur frá öllum þátttökulöndunum saman í tvo daga (okt/nóv 2024).
Þátttaka í námskeiðinu er að mestu gjaldfrjáls utan 20 þúsund króna staðfestingargjalds sem er óendurkræft. Verkefnið greiðir fyrir gistingu og uppihald þátttakenda á vinnustofum. Þátttakendur verða hins vegar að bera ferðakostnað innanlands sjálfir. Kostnaður vegna þátttöku í alþjóðlegu vinnustofunni er einnig greiddur af verkefninu. Áhugasamir finna frekari upplýsingar um námskeiðið á heimasíðu LIFE, www.lifeworthliving.is og umsóknareyðublaðið er að finna hér. Umsóknarfrestur er til og með 6. desember 2023 og niðurstöður mats á umsóknum mun liggja fyrir um miðjan mánuðinn. Horft verður til aldurs, kyns, reynslu, og landfræðilegrar staðsetningar við val á þátttakendum. Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.
Spurningum svara María Kristín (maria@northconsulting.is) og Ólafur Páll (opj@hi.is)
Af hverju Líf sem er lífsins virði?
Allt of lengi hafa skólar, einkum kennarar og skólastjórnendur, þurft að bera þungann af hröðum breytingum á samfélagsháttum. Staðan var þessi fyrir Covid-19 heimsfaraldur en á meðan á honum stóð fór þetta ekki á milli mála, enda var skólum gert að umbreytast á einni nóttu á meðan ótti og óvissa ríktu í samfélaginu. Út um allan heim tóku kennarar áskoruninni og lærðu að tileinka sér nýja tækni til að tryggja nemendum tækifæri til náms. Um leið og þeir tókust á við eigin kvíða bjuggu þeir nemendum sínum yfirvegað námsumhverfi. Faraldurinn hefur nú fjarað út en álagið á kennara og skólastjórnendur einungis aukist sökum aukins kvíða meðal nemenda, þunglyndi og aukinnar fjarveru frá námi. Hvarvetna er horft til skóla og kennara með að hlúa að andlegri velferð nemenda. Á meðan ástand nemenda er alvarlegt, er sláandi skortur á stuðningi við velferð þeirra fullorðnu í skólum, þeirra sem hafa verið kölluð til aðstoðar. Orð bandaríska menntunarfræðingsins Bell Hooks, þar sem hún segir að „kennarar geta ekki stuðlað að heildrænni umbreytingu nemenda ef þeir eru ekki sjálfir heilir“ eru í þessu sambandi þörf áminning.
Því spyrjum við okkur: Hver hlúir að andlegri velferð kennara og skólastjórnenda? Líf sem er lífsins virði svarar þessu kalli.
Hvernig lítur farsælt líf út? Þessi spurning leggur grunn að leitinni að merkingu og tilgangi í mannlegu lífi og er þess vegna grundvallarspurning í allri menntun. Til að tryggja velferð kennara og skólastjórnenda, og velferð heimsins sem starf þeirra á þátt í að móta, þá verða þeir að geta tekist á við þessa spurningu og í því sambandi horft á margbreytileika samfélagsins. „Líf sem er lífsins virði: að hugsa um kennara og stjórnendur“ býr kennara og aðra sem starfa við menntun undir að greina, móta og leita eftir hinu góða lífi með því að takast á við nokkrar helstu hefðir í heimspeki, menningu og trúarbrögðum. Kennarar og skólastjórnendur munu hugleiða margbreytileika mannlegrar reynslu með því að eiga samræðu um nokkrar af dýpstu spurningum mannlegrar tilvistar. Hvað merkir það að tilheyra? Gagnvart hverjum erum við ábyrg? Hvernig líður okkur þegar við lifum vel? Hvað þýðir það að líf gangi vel? Hvernig eigum við að breyta? Hvaða hlutverki gegnir þjáning í góðu lífi? Hvað ættum við að gera þegar okkur mistekst? Kennurum og skjólastjórnendum er boðið að setja fram sín eigin svör við þessum spurningum og lifa eftir þeim.
Líf sem er lífsins virði: að hugsa um kennara og stjórnendur (LIFE) er fjármagnað af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins með styrk að upphæð 4000.000 evrur. NORTH Consulting og Háskóli Íslands leiða verkefnið ásamt menntastofnunum í fjórum öðrum Evrópulöndum (Ísland, Grikkland, Belgía, Ítalía og Búlgaría). Kennarar og skólastjórnendur í öllum þessum löndum munu taka þátt í verkefninu með það að markmiði að styðja við velferð þeirra. Frekari upplýsingar um LIFE verkefnið er að finna á heimasíðu þess www.lifeworthliving.is.